Aðalfundur Öldrunarfræðafélags Íslands haldinn 19. mars 2025

Öldrunarfræðafélag Íslands hélt aðalfund sinn miðvikudaginn 19. mars sl. kl. 16:30 í fundarsal iðjuþjálfunar á K3, 3. hæð Landakotsspítala LSH, Túngötu 26, 101 Reykjavík. Fundurinn var vel sóttur af félagsmönnum og öðrum áhugasömum um öldrunarfræði og málefni eldra fólks á Íslandi.

Í upphafi fundar var úthlutað úr Vísindasjóði Öldrunarfræðafélagsins. Styrki hlutu Emese Kenderesi og Kristín Una Hólmarsdóttir, báðar MSc nemendur í næringarfræði við Háskóla Íslands. Nánar verður sagt frá verkefnum þeirra síðar. Öldrunarfræðafélag Íslands óskar þeim innilega til hamingju með styrkveitinguna og óskar þeim velfarnaðar í rannsóknum sínum.

f.v. Guðrún Reykdal, formaður Vísindasjóðs ÖLD, Emese Kenderesi og Kristín Una Hólmarsdóttir, styrkþegar og Sirrý Sif Sigurlaugardóttir, fráfarandi formaður stjórnar ÖLD.

Á fundinum voru hefðbundin aðalfundarstörf á dagskrá, þar sem farið var yfir skýrslu stjórnar og vísindasjóðs og reikninga félagsins. Stjórnin kynnti einnig helstu verkefni og viðburði síðasta árs og ræddi framtíðarsýn félagsins.

Eftir skýrsluskil var kosið í stjórn félagsins samkvæmt 6. gr. laga félagsins. Stjórn vísindasjóðs er óbreytt frá fyrra starfsári og sama gildir um skoðunarmenn reikninga. Einnig var ákveðið árgjald, sem var hækkað um 1000 kr. úr 2000 kr. í 3000 kr., árgjaldið hefur ekki verið hækkað í áratug. Nokkrar breytingar urðu á skipan stjórnar, og ný stjórn tók við með það að markmiði að efla starfsemi félagsins enn frekar og stuðla að aukinni umræðu um málefni eldra fólks í samfélaginu.

Sirrý Sif Sigurlaugardóttir félagsráðgjafi lauk formannssetu sinni en verður stjórnarmönnum áfram innan handar sem varamaður í stjórn. Berglind S. Blöndal, sem áður var varaformaður, tók við sem formaður. Ný í stjórn er Katrín Knudsen félagsráðgjafi sem tók við hlutverki varaformanns. Katrín útskrifaðist úr starfsréttindanámi í félagsráðgjöf 2022, hóf í kjölfarið störf á Landspítalanum sem félagsráðgjafi innan öldrunarlækningardeilda Landspítalans en var í byrjun þessa árs ráðin til Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sem teymisstjóri Heimastuðnings í efri byggð. Guðrún Día Hjaltested sjúkraþjálfari gekk úr stjórn, henni eru færðar bestu þakkir fyrir vel unnin störf.

Katrín Knudsen, félagsráðgjafi og nýskipaður varaformaður stjórnar ÖLD.

Öldrunarfræðafélag Íslands þakkar öllum sem mættu á fundinn og hlakkar til áframhaldandi samstarfs og fræðslu á sviði öldrunarfræða á komandi ári.

f.v. Margrét Guðnadóttir ritari stjórnar færði Sirrý Sif Sigurlaugardóttur blómvönd með þökkum fyrir vel unnin störf.

Deildu þessu á:

Facebook