Aðalfundur Öldrunarfræðafélags Íslands fór fram í fundarsal Heilsugæslunnar við Urðarhvarf föstudaginn 24. mars síðastliðinn. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf og úthlutun úr vísindasjóði. Tveir gengu úr stjórn og tveir nýir komu inn. Sunna Kristinsdóttir, iðjuþjálfi og Guðfinna Björnsdóttir, sjúkraþjálfari gáfu ekki kost á sér áfram. Fá þær bestu þakkir fyrir sitt framlag í þágu ÖLD með góðum kveðjum. Nýjar inn í stjórn komu Guðrún Día Hjaltested, sjúkraþjálfari og Svanborg Guðmundsdóttir, iðjuþjálfi. Sirrý Sif Sigurlaugardóttir félagsráðgjafi er áfram formaður stjórnar. Berglind Blöndal næringarfræðingur og Margrét Guðnadóttir hjúkrunarfræðingur gáfu báðar kost á sér áfram. Ný stjórn hefur þegar fundað og hlakkar til komandi starfsárs.
Allir meðlimir í stjórn vísindasjóðs gáfu kost á sér áfram svo hún er óbreytt milli ára. Stjórn vísindasjóðs skipa Guðrún Reykdal, félagsráðgjafi, Sigrún Sunna Skúladóttir, hjúkrunarfræðingur og Vilborg Kolbrún Vilmundardóttir, næringarfræðingur. Nokkrar umsóknir bárust í vísindasjóðinn en ákveðið var að styrkja eina rannsókn í ár um 300.000 kr.- Ingi Rúnar Árnason meistaranemi í sálfræði við Háskóla Íslands fékk styrkinn vegna verkefnisins Viðhorf til eldra fólks á Íslandi: hlutverk sálfélagslegra breyta og samfélagslegrar stöðu. Við óskum Inga Rúnari kærlega til hamingju og hlökkum til að heyra af niðurstöðum verkefnisins.