Vinnustofa verkefnastjórnar um öldrunarmál var haldin á Hilton Nordica þann 22. september 2022. Verkefnastjórnin undir forystu Berglindar Magnúsdóttur og Ólafs Þórs Gunnarssonar bauð um 60 manns til lokaðrar vinnustofu þar sem þau kynntu hugmyndir um nálgun verkefnastjórnarinnar að „Virði og virðingu“ í málefnum aldraðra. Einnig var gefin innsýn í þróunarvinnu að módelinu „Vegferð um þjónustukerfið“ sem miðar að því að skýra og bæta stuðning og vegferð fjölskyldna sem lifa með heilabilun. Vinnustofuna sátu ráðherrar heilbrigðis- og félagsmála.
Öldrunarfræðafélag Íslands átti sinn fulltrúa á vinnustofunni ásamt fagfólki í öldrunarmálum af öllu landinu, þvert á fræðigreinar, stofnanir og félagasamtök. Kynnt voru ýmis frumkvöðla verkefni sem unnið hefur verið að síðustu misserin til að bæta þjónustu við eldra fólk. Einnig var unnið á hverju borði með þátttakendum að hugmyndavinnu og lausnum afmarkaðra þátta eins og samþættrar þjónustu, við brögðum við einmanaleika, persónumiðaða nálgun og fleira. Leitast var eftir áliti og hugmyndum fagfólksins til að nálgast málefni.
Samtal sem þetta er mikilvægt til að auka víðsýni í nálgun. Vonandi verður þetta fyrsta af mörgum vinnustofum sem svo breiður hópur verður boðinn til. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar að gera betur og spennandi verður að fylgjast með vinnu og framlagi verkefnastjórnarinnar til bættrar öldrunarþjónustu næstu misserin.