Hreyfing og næring á efri árum – lífsins elixír
Miðvikudaginn 9. mars og mánudaginn 14. mars kl. 16:15 – 18:15
Heilbrigður lífsstíll getur hjálpað okkur að takast á við þau verkefni sem lífið bíður upp á. Markviss hreyfing og æskileg næring getur dregið verulega úr líkum á langvinnum sjúkdómum og aukið lífsgæði. Heilbrigði er ekki eingöngu að vera laus við sjúkdóma eða fötlun, heldur allt í senn, líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan. Á námskeiðinu verður fjallað um hvernig matur og hreyfing geta verið lykilþættir fyrir líkamlega, andlega og félagslega vellíðan.
Ósk flestra eldri borgara er að eldast með reisn og að geta séð um sig eins lengi og kostur er. Á námskeiðinu verður fjallað um hvernig mögulegt er að ná þessum markmiðum samhliða því að auka lífsgæði okkar á efri árum.
Með aukinni þekkingu og hæfni á mikilvægi matar og ástundun fjölþættrar heilsuræktar getum við aukið líkamlega, andlega og félagslega vellíðan.
Á námskeiðinu er fjallað um breytingar á andlegum, félagslegum og líkamlegum þáttum sem eiga sér stað þegar við eldumst. Þá er fjallað um áhrif fæðuvals og fæðuvenja og áhrif og niðurstöður markvissrar hreyfingar með áherslu á þol og styrktarþjálfun á öldrunarferlið. Í lokin er fjallað um áhrif lyfjainntöku á hreyfingu og áhrif sem hreyfing getur haft á lyfin.
Á námskeiðinu er fjallað um:
• Helstu líkamlegar, andlegar og félagslegar breytingar sem eiga sér stað með hækkandi aldri.
• Áhrif reglulegrar hreyfingar á heilsu og velferð.
• Áhrif matar og fæðuvals á heilsu og velferð.
• Kosti og galla þess að breyta um lífsstíl.
• Áhrif þess að byrja á lífsstílsbreytingum eftir sextugt.
• Áhrif hreyfingar á lyfjanotkun og áhrif lyfjanotkunar á hreyfingu.
• Mögulega þátttöku í framhaldsnámskeiði sem fólgið er í líkams- og heilsurækt í fjórar til tólf vikur.
Kennari(ar):
Janus Guðlaugsson, PhD-íþrótta- og heilsufræðingur, Ólafur Þór Gunnarsson, lyf- og öldrunarlæknir á LSH, Ólöf Guðný Geirsdóttir, PhD-næringarfræðingur og
Pálmi V. Jónsson, prófessor í öldrunarlækningum við læknadeild HÍ.
Líkamsrækt á þínum forsendum
Þriðjudaginn 29. mars og 19.apríl kl. 19:30 – 22:00
Líkamsrækt þarf að vera skemmtileg. Á námskeiðinu verða þátttakendur aðstoðaðir við að setja saman þjálfunaráætlun með hliðsjón af áhugasviði og fyrri reynslu. Fjallað verður um mikilvægi líkamsræktar fyrir bæði sál og líkama, hvers vegna líkamsræktaráform bregðast og hvernig gott er að fá umhverfið til að styðja þjálfunaráform.
Fyrra námskeiðskvöldið verður fjallað um mikilvægi líkamsræktar og hvað gott er að hafa í huga þegar markviss þjálfun er skipulögð. Þátttakendur verða aðstoðaðir við að setja saman þjálfunaráætlun, setja sér markmið tengd áætluninni og leitast við að skoða hvað hægt er að gera til að styðja þau áform sem þátttakendur hafa sett sér.
Síðara kvöldið verður um þremur vikum síðar. Þá verður skoðað hvernig gengið hefur að hrinda áætlunum í framkvæmd og þátttakendur aðstoðaðir með hliðsjón af því hvernig hefur gengið. Þeir sem eru komnir af stað verða hvattir til að taka þjálfunina lengra t.d. með púlsmælingum en þeim sem þurfa meiri aðstoð við að hefja þjálfunina verður veitt nánari leiðsögn þar að lútandi.
Á námskeiðinu er fjallað um:
• Gerð þjálfunaráætlunar fyrir einstaklinga með hliðsjón af áhugasviði.
• Mat á árangri á eigin forsendum.
• Leiðir til að styrkja eigin áhugahvöt.
• Hugsanlegar ástæður þess að líkamsræktaráform bregðast.
• Mikilvægi líkamsræktar fyrir góða líðan, m.a. til að draga úr streitu og almennum kvíða.
Kennari(ar):
Védís Grönvold er íþróttakennari með B.Ed í grunnskólakennarafræðum frá KHÍ, MA-prófi í uppeldis- og menntunarfræðum frá HÍ og meistaragráðu í menntarannsóknum frá Cambridge. Hún hefur kennt fullorðnum líkamsrækt nær samfellt í yfir 20 ár, bæði hóptíma og einkaþjálfun.
Hvar: Endurmenntun, Dunhaga 7.