Saga félagsins

Eftirfarandi grein birtist í 2. tbl. Öldrunar 1998 Ársæll Jónsson og Gunnhildur Sigurðardóttir:

Öldrunarfræðafélag Íslands Stofnun og störf fyrstu árin

Inngangur

Þegar Öldrunarfræðafélag Íslands á 25 ára afmæli er vel við hæfi að minnast upprunans og rifja uppstarfsemina fyrstu árin. Höfundum þessarar samantektar er þetta verkefni bæði ljúft og skylt, bæði til að þakka fyrir sýndan heiður til okkar á afmælisþingi félagsins og ekki síður til að minnast þess fjölþætta starfs sem margir lögðu á sig í þágu félagsins. Stuttur tími gafst til undirbúnings, ekki hafðist upp á öllum gögnum, leita þurfti til ýmissa aðila um frekari upplýsingar og verður því að taka viljann fyrir verkið fyrir það sem á kann að vanta.

Norrænu félögin

Öldrunarfræðafélög á Norðurlöndum eiga sér flest lengri sögu. Elst eru þau sænsku og finnsku, Svensk Selskap for Aldersforskning stofnað 1946 og Societas Gerontologica Fennica r.f. stofnað árið 1948 og fagnar 50 ára afmælinu um þessar mundir. Danska félagið, Dansk Gerontologisk Selskab, var stofnað árið 1956 og það norska, Norsk gerontologisk selskap árið 1954, en nafni þess var breytt í Norsk selskap for aldersforskning (NSA) árið 1962.

Félög norrænna öldrunarlækna eiga einnig sína sögu. Þau gátu verið samtök innan heildarsamtaka lækna, eins og Svenska Läkaresällskapets sektion för Åldersforskning eða læknanefnd innan öldrunarfræðafélags eins og reyndin varð hjá íslenska félaginu til ársins 1989 þegar Félag íslenskra öldrunarlækna (FÍÖ) var stofnað. Norsk geriatrisk forening var stofnað árið 1975, Suomen Geriatrit-Finlands Geriatrer árið 1980, Svensk Geriatrisk Förening og Dansk Selskab for Langtidsmedisin árið 1972 og nafninu breytt í Dansk Selskab for Geriatri 1990-1991.

Þriðja finnska félagið í öldrunarfræðum, Föreningen för forskning i uppväxt och åldrande r.f., var stofnað árið 1980 og fékk aðild að Nordisk Gerontologisk Forening árið 1993. Þriðja sænska félagið Sveriges Gerontologiska Sällskap er yngst þessara félaga, stofnað árið 1998 og hefur sátt um aðild að NGF.

Stofnun Nordisk Gerontologisk Forening

Heildarsamtök norrænna félaga í öldrunarfræðum og öldrunarlækningum, Nordisk Gerontologisk Forening (NGF), voru stofnuð árið 1973 í Óðinsvéum Í Danmörku, en þar var haldið fyrsta norræna þingið í öldrunarfræðum, 1. NKG (Nordiske Kongress i Gerontologi). Félag danskra öldrunarlækna ritaði bréf til íslenska Heilbrigðismálaráðuneytisins og boðaði til fundarins. Eftir að ráðuneytið hafði haft samband við ýmsa aðilja hér heima varð það úr að Þór Halldórsson yfirlæknir á hjúkrunarheimilinu að Sólvangi sótti þingið af hálfu ráðuneytisins en Alfreð Gíslason yfirlæknir á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund var einnig með í för.

Megintilgangur með stofnun NGF var að sameina þessa dreifðu krafta á sviði öldrunarfræða á breiðum grunni. Á þingingu voru sett fram þessi markmið:

  1. að stuðla að rannsóknum innan öldrunarfræða á sviði lífeðlisfræði, læknisfræði og félagsfræði á Norðurlöndum
  2. að stuðla að auknum samskiptum á milli félagsmanna og félaga í öldrunarfræðum,
  3. að stuðla að bættri menntun starfsmanna í öldrunarþjónustu þessara landa og
  4. að vera tengiliður við alþjóðasamtök í öldrunarfræðum, International Association of Gerontology (IAG). NGF beitti sér fyrir samnorrænum vísindaþingum á tveggja ára fresti, höldnum í hverju landi fyrir sig til skiptis, þ.e. Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Noregi og á Íslandi. Síðasta þingið á Íslandi var haldið árið 1990 og það næsta verður því haldið árið 2000. Tímasetningu var hnikað lítillega til á áttunda áratugnum til þess að stemma við álfuþing IAG.

 

Stofnun Öldrunarfræðafélags Íslands

Öldrunarfræðafélag Íslands (ÖFFÍ) er stofnaðili að Nordisk Gerontologisk Forum og hefur félagið miðar afmælisdaga sína við fæðingu NGF. Hins vegar var hinn eiginlegi stofnfundur haldinn síðar eða fimmtudaginn 21. mars 1974 og fór hann fram á Hótel Sögu. Fyrsti formaður þess var kjörinn Gísli Sigurbjörnsson forstjóri.

Aðrir í stjórn voru kosnir: varaformaður Þór Halldórsson yfirlæknir, ritari Geirþrúður Hildur Bernhöft ellimálafulltrúi, gjaldkeri Rannveig Þórólfsdóttir hjúkrunarfræðingur og meðstjórnandi Alfreð Gíslason læknir. Til þess að tryggja endurnýjun í stjórn félagsins voru sett þau ákvæði að hver stjórnarmaður sæti aðeins tvö tveggja ára kjörtímabil í senn, síðar var því breytt í þrjú kjörtímabil í senn, nema sem varamaður. Tekið var mið af markmiðum NGF en jafnframt voru þau löguð að ríkjandi aðstæðum hér heima. Verkefni hins íslenska öldrunarfræðafélags voru á stofnfundinum skrásett á þennan hátt:

  1. að stuðla að rannsóknum á fyrirbærum öldrunar, hrörnunarsjúkdómum svo og félagslegum vanda aldraðs fólks
  2. að vinna að aukinni fræðslu um þessi efni, jafnt á faglegum vettvangi sem meðal almennings
  3. að vera til ráðuneytis um lausn vandamála aldraðra
  4. að beita sér fyrir umbótum um lausn vandamála aldraðra í heilbrigðislegum og félagslegum efnum


Markmiðunum var breytt lítilsháttar árið 1990 og þau birt í fréttablaði félagsins, Öldrun 1.tbl. 11. árg. 1993.

Framgangur markmiða

ÖFFÍ hefur staðið fyrir mörgum ráðstefnum, námsstefnum og málþingum á sviði öldrunarfræða í gegnum árin. Hæst ber norrænu þingin 5. NKG árið 1981 og 10. NKG árið 1990, bæði haldin í Reykjavík. Félagið hefur átt fulltrúa í stjórn NGF og einnig í sérfræðirási, síðar endurskírt fagráði, NGF. Fréttabréf félagsins var sett á laggirnar árið 1983 og hafa tvö til fjögur eintök verið gefin út á hverju ári. ÖFFÍ beitti sér fyrir að gerð var bókasafnsfræðileg úttekt á öllum íslenskum rannsóknarverkefnum sem birt hafa verið á sviði öldrunarfræða (Lykill. Rit um bókfræði, Háskólaútgáfan 1990). Stofnaður var vísindasjóður úr afrakstri 5. NKG og var sjóðurinn síðar efldur myndarlega með framlögum frá Rauða krossi Íslands og einnig frá stjórn ÖFFÍ. Úr þessum vísindasjóði hafa verið veittir allmargir styrkir til íslenskra rannsókna í öldrunarfræðum.

Kennslumálin nutu einnig mikillar athygli og þótti brýnt að koma þeim í lag. Minna má á grein Arinbjarnar Kolbeinssonar læknis í Læknablaðinu árið 1976 um ,,öldrunarsjúkdómafræði sem námsgrein í læknaskólum”. Stakk hann upp á því á fundum og manna á meðal að fundnar væru nýjar leiðir til að fjármagna kennslustól í öldrunarlækningum við Háskóla Íslands. Af hálfu félagsins voru síðar lagðar fram tillögur til kennslunefnda Læknadeildar en lítið þótti miða á þessum árum. Kennslu í öldrunarfræðum innan hefðbundinna námsgreina var þó víða komið á laggirnar. Sem dæmi má nefna að öldrunarhjúkrun hefur verið kennd við Námsbraut í hjúkrunarfræði frá stofnun hennar árin 1974 og hefur vægi hennar aukist með árunum. Reglubundin kennsla í öldrunarlækningum hefur verið á dagskrá fyrir læknanema allt frá árinu 1979 og kennslustóll í öldrunarlækningum var stofnaður árið 1992. Fyrirferðarmestu málin á fyrstu árunum voru samt sem áður á sviði vistunarmála og stjórnsýslu.

 

V I Ð B U R Ð I R

 

1946
Svensk Selskap for Aldersforskning

1948
Societas Gerontologica fennica

1956
Dansk Gerontologisk Selskab

1954
Norsk gerontologisk selskap árið

1973
Öldrunarfræðafélag Íslands

1980
Föreningen för forskning i uppväxt och åldrande (Finnlandi)

1998
Sveriges Gerontologiska Sällskap

 

 

F O R M E N N  ÖFFÍ / ÖLD
(uppfært)

 

1974-1978 Gísli Sigubjörnsson

1978-1983 Þór Halldórsson

1983-1987 Ársæll Jónsson, læknir

1987-1991 Jón Snædal, læknir

1991-1997 Anna Birna Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur

1997-2003 Steinunn K. Jónsdóttir, félagsráðgjafi

2003-2005 Sigríður Jónsdóttir

2005-2011 Sigrún Ingvarsdóttir, félagsráðgjafi

2011-2014 Líney Úlfarsdóttir, sálfræðingur

2014-2021 Sigurbjörg Hannesdóttir, iðjuþjálfi

2021- Sirrý Sif Sigurlaugardóttir, félagsráðgjafi 

Tengsl Öldrunarfræðafélags Íslands við heilbrigðisyfirvöld

Mörg erfið úrlausnarmál á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu við aldraða kallaði sterkt á lagasetningu á þessum árum. Óformleg nefnd á vegum landlæknis fundaði vikulega á dagspítala öldrunarlækningadeildar Landspítalans í Hátúni 10b, 1979-1980. Ólafur Ólafsson landlæknir stýrði nefndinnni en auk hans störfuðu þau Pétur Sigurðsson forstjóri Hrafnistu, Adda Bára Sigfúsdóttir frá ráðuneyti heilbrigðismála auk læknanna Þórs Halldórssonar og Ársæls Jónssonar. Umræður voru oft líflegar og skapandi. Afraksturinn má að hluta til sjá í Fylgiriti við Heilbrigðisskýrslur nr. 2, 1982, sem Ingimar Einarsson tók saman fyrir Landlæknisembættið.

Árið 1981 var samþykkt á Alþingi að koma á samræmdri skipan í málefnum aldraðra. Þessi málaflokkur hafði verið mjög sundurleitur, hluti af þjónustunni var á vegum Félagsmálaráðuneytis og hluti af þjónustunni á vegum Heilbrigðismálaráðuneytis. Framkvæmdasjóður aldraðra var stofnaður með lögum þetta sama ár. Samþykkt var að Framkvæmdasjóðurinn hefði markaðan tekjustofn, sem var sérstakt gjald lagt á alla skattskylda einstaklinga. Sjóðurinn starfar enn.

Hlutverk Framkvæmdasjóðsins var í fyrstu að:

  1. fjármagna stofnanir ríkissjóðs vegna stofnana fyrir aldraða,
  2. veita framlög til samtaka eða einstaklinga vegna bygginga fyrir aldraða,
  3. veita fé til breytinga og endurbóta á eldri stofnunum.


Leitað var til Öldrunarfræðafélags Íslands um að tilnefna fulltrúa í fyrstu stjórn framkvæmdasjóðsins. Í fyrstu stjórn sjóðsins voru: Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri í Heilbrigðisráðuneyti, formaður, Gunnhildur Sigurðardóttir frá Öldrunarfræðafélagi Íslands, Adda Bára Sigfúsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Fyrsta verkefni sjóðssins var að styrkja byggingu B-álmu Borgarspítalans.

Ár aldraðra 1982

Um haustið 1981 skipaði þáverandi heilbrigðisráðherra nefnd, sem átti að koma með tillögur að frumvarpi til laga um málefni aldraðra.

Í nefndina voru skipuð: Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri, sem jafnframt var formaður, Gunnhildur Sigurðardóttir Öldrunarfræðafélagi Íslands, Adda Bára Sigfúsdóttir, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Þórarinn V. Þórarinsson, Vinnuveitendasambandi Íslands, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Alþýðusambandi Íslands, Pétur Sigurðsson Hrafnistu DAS og Hrafn Sæmundsson skipaður af ráðherra án tilnefningar. Dögg Pálsdóttir var ritari nefndarinnar. Nefndarstörfin gengu vel, frumvarpið var lagt fyrir Alþingi um haustið 1982 og varð að lögum nr. 91/1982. Þáttur Öldrunarfræðafélagsins í þessari vinnu var að koma fram með faglega þætti í þjónustu við aldraða og samhæfa þá öðrum þáttum. Á Ári aldraðra 1982 var Öldrunarráð Íslands stofnað. Öldrunarráðið samanstendur af fjölda stofnana og félagasamtaka sem láta málefni aldraðra til sín taka. Öldrunarfræðafélagið tók virkan þátt í stofnun ráðsins og starfsemi þess s’ðan. Núverandi formaður Öldrunarráðs er Jón Snædal frá Félagi íslenskra öldrunarlækna og situr hann jafnframt í Samstarfsnefnd um málefni aldraðra.

Niðurlag

Á þeim tíma sem Öldrunarfræðafélagið hefur starfað hafa orðið stórstígar framfarir í þjónustu við aldraða um allt land. Öldrunarfræðafélagið hefur tekið þátt í þessari uppbyggingu af krafti, einstaklingar innan félagsins hafa veitt ómetanlegan stuðning hvað varðar faglega ráðgjöf og komið fram með tillögur að skipulagi og stefnumörkun félagsins og stjórnvalda.

Stjórn félagsins hefur ætíð verið skipuð ötulu fólki, sem notið hefur öflugs stuðnings frá virkum meðlimum félagsins. Það er von okkar að svo verði áfram um ókomna t’ð. Ársæll Jónsson er öldrunarlæknir á öldrunarsviði Sjúkrahúss Reykjavíkur Gunnhildur Sigurðardóttir er hjúkrunarforstjóri á St. Jósefsspítalanum Hafnarfirði.

Heimildir

Fylgirit við Heilbrigðisskýrslur,1982:2.
Heimilispósturinn. Elli- og hjúkrunarheimilið Grund, 1974.
Lykill. Rit um bókfræði, Háskólaútgáfan,1990.
Læknablaðið 1976:72-4.
NGF Aktuellt 1984:9, nr. 2.
Öldrun, 1983:1.
Upplýsingar veittu: Helga Gísladóttir, Rannveig Þórólfsdóttir, Toril Utne, Þór Halldórsson.